Arabaríkin eru nú að endurskoða hugmyndir sínar að friðarsamkomulagi við Ísraela frá árinu 2002 með það að markmiði að liðka fyrir samningum um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Fram kemur í arabísk blaðinu Al-Quds al-Arai sem gefið er út í London að þetta sé gert að beiðni Barack Obama Bandaríkjaforseta. Mun endurskoðunin m.a. snúast um þá kröfu Araba að palestínskir flóttamenn fái að snúa aftur til Ísraels eða framtíðarríkis Palestínumanna.
Mikil andstaða er við það meðal Ísraela að Palestínumenn, sem búsettir eru utan palestínsku sjálfstjórnarsvæðanna, og afkomendur þeirra fái að snúa aftur til Ísraels eða að þeir fái ríkisborgararétt í ríki Palestínumanna.
Þá munu tímatakmarkanir, sem settar eru fyrir eðlilegum samskiptum Ísraela og nágrannaþjóða þeirra vera til endurskoðunar en í hugmyndunum frá árinu 2002 eru eðlileg samskipti við Ísrael boðin í skiptum fyrir það að Ísraelar fallist á að framtíðarlandamæri ríkjanna liggi þar sem viðurkennd landamæri Ísraelsríkis lágu fyrir sex daga stríðið árið 1967.