Um 200 sómalskir sjóræningjar eru sagðir hafa heitið því að láta af sjóránum á fundi með ættbálkahöfðingjum í Eyl í sjálfstjórnarhéraðinu Putland í norðurhluta Sómalíu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Abshir Abdullah, þekktur sjóræningi á svæðinu, sagði í samtali við fréttamann BBC að sjóræningjarnir hefðu jafnframt samþykkt að hvetja aðra sjóræningja til að láta af sjóránum og sleppa þeim gíslum sem þeir hafi í haldi.
„Ég lít á sjálfan mig sem mann sem hefur verið bjargað frá illu framferði,” sagði hann. „Ég geri mér nú grein fyrir því hversu rangt það var sem ég gerði og að það stríddi gegn kenningum íslam.”
Þá sagðist hann hafa samið um það við ættbálkahöfðingjana að vinna með þeim að því að sannfæra aðra sjóræningja um að snúa einnig við blaðinu.
„Ég mun ráðleggja þeim sem vilja halda til sjós að gera það ekki og ég vona að þeir muni hætta sjóránum líkt og við höfum nú samið um. Ég mun einnig hvetja þá sem hafa nú skip á valdi sínu til að sleppa þeim og að halda ekki áfram á sömu braut.”
Sjóræningjar í Sómalíu hafa sætt vaxandi gagnrýni heima fyrir að undanförnu og hafa ættbálkahöfðingjar m.a. sakað þá um að færa spillingu inn í samfélög sín.
Sjóránum úti fyrir ströndum Sómalíu hefur fjölgað á undanförnum mánuðum þrátt fyrir að erlend herskip séu á hafsvæðinu til að reyna að koma í veg fyrir sjórán.
Yfirvöld í landinu fóru í síðustu viku fram á aðstoð alþjóðasamfélagsins við uppbyggingu strandgæslu en áður hafa ráðamenn í landinu sakað erlendu herskipin um að spilla veiði og vernda veiðiþjófa í lögsögu landsins.