Darling flæktur í kosnaðarmálið

Alistair Darling með gamla fjárlagatösku við embættisbústað sinn í Downing-stræti …
Alistair Darling með gamla fjárlagatösku við embættisbústað sinn í Downing-stræti 11. Reuters

Staðhæft er í breska blaðinu The Daily Telegraph í dag að Alastair Darling, fjármálaráðherra landsins, hafi krafið ríkið um kostnaðargreiðslur vegna íbúðar sinnar í London eftir að hann flutti inn í embættisbústað við Downing-stræti 11.  

Fram kemur á fréttavef BBC að talsmaður hans segi þetta ósatt en málið tengist kostnaðargreiðslum til breskra þingmanna vegna „annars” heimilis þeirra í London.   Einnig er staðhæft að hann hafi sent ríkisstjóði reikning fyrir að láta endurskoðanda vinna skattskýrslu sína.

Einnig er greint frá því í The Telegraph í dag að Michael Howard, fyrrum leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hafi á fjórum árum þegið rúmlega 17.000 sterlingspund vegna garðyrkjuþjónustu við annað heimili hans í Kent. Hann hefur lýst því yfir að þetta sé ósatt og að um samantekt á ýmsum viðhaldskostnaði hafi verið að ræða. 

Samkvæmt heimildum The Daily Telegraph krafði Darling ríkissjóð um 1.000 sterlingspund í júlí árið 2007 skömmu eftir að hann varð fjármálaráðherra. Tengdust kröfurnar íbúð hana í suðurhluta London. 

„Ásakanir um tvöfaldar kröfur eru einfaldlega ósannar,” segir talsmaður hans. „Hann greiddi reikninga sem tengdust íbúðinni þar til hann flutti þaðan út í september árið 2007 en síðan þá hefur hann ekki gert neinar kostnaðarkröfur. 

Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hefur þegar krafist afsagnar Darling vegna kostnaðarmálsins. 

Kosningar til sveitastjórna og Evrópuþinsins fara fram í Bretlandi á þriðjudag og er Verkammaflokkurinn sagður búa sig undir erfið úrslit.

Gordon Brown, formaður flokksins og forsætisráðherra, sagði hins vegar er hann var spurður að því í gær hvort hann myndi segja af sér komi flokkurinn illa út úr kosningunum að það kæmi ekki til greina.

Breska blaðið Sunday Times staðhæfði í gær að Brown vilji að Ed Balls, núverandi skólamálaráðherra, verði fjármálaráðherra í stað Alistair Darling. Búist er við því að tilkynnt verði um miklar breytingar á ríkisstjórninni í lok þessarar viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert