Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, segir þá hótun Norður-Kóreu að smíða vopn úr plútoníum birgðum sínum vera bæði ögrandi og eftirsjáanlega.
Ráðherrann sagði að þessi ákvörðun væri hörmuð á heimsvísu og myndi þjóna þeim tilgangi einum að einangra stjórn Norður-Kóreu enn frekar.
Kommúnistastjórnin í Norður-Kóreu kom með hótun sína vegna þeirrar ákvörðunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að samþykkja refsiaðgerðir gegn stjórninni fyrir kjarnorkutilraunir sínar. Refsiaðgerðirnar fela í sér strangara eftirlit með vöruflutningum til og frá og Norður-Kóreu og hótar stjórnin í Pyongyang að litið verði á tilraunir til að loka af landið sem stríðsyfirlýsingu. Stjórn Norður Kóreu hefur enn fremur lýst yfir að hafið verði að auðga úran í sama tilgangi.
Í heimsókn sinni til Kanada sagði Clinton að Bandaríkjastjórn muni framfylgja refsiaðgerðunum af fyllstu einurð. Hún sagði líka að ákvörðun SÞ myndi koma sér vel sem liður af aðgerðum til að bregðast rétt við gagnvart Norður-Kóreu.