Hjúkrunarfræðingar geta litið framtíðina björtum augum. Mannkynið eldist stöðugt og ekki er útlit fyrir annað en að sprenging verði í eftirspurn eftir aðhlynningu fyrir eldri borgara á næstu áratugum.
Lítum á nokkrar tölur. Nú um stundir er um níundi hver jarðarbúi – mannkynið er nú 6,9 milljarðar – 60 ára eða eldri, hlutfall sem verður tvöfalt hærra um miðja öldina.
Fæðingum fer líka fækkandi.
Á áttunda áratugnum áttu konur að meðaltali 4,3 börn en aðeins 2,6 börn að meðaltali nú, ef svo má að orði komast, og útlit fyrir að talan lækki í tvö börn um miðja öldina, að því er fram kemur í ýtarlegri úttekt tímaritsins Economist um öldrunarvandann. Segir þar að árið 1980 hafi að meðaltali fimmti hver þegn verið á eftirlaunaaldri í ríkum löndum, fjórði hver nú og haldi fram sem horfi verði hlutfallið 45% um miðja öldina. Útlitið er enn dekkra í Japan. Þar er því spáð að 7 af hverjum 10 verði á eftirlaunaaldri árið 2050.
Eftir því sem þessi kynslóð óx úr grasi breyttist hins vegar hlutverk konunnar og fæðingum tók að fækka. Staðan er þó önnur í fátækari ríkjum.
Fræðimaðurinn Adele Hayutin við Stanford Center on Longevity bendir þannig á í nýlegri grein, Global Aging: The New New Thing, að öll Afríkuríki og nær öll ríki Miðausturlanda séu í þeim sporum að ýmist 40 til 50% eða 50 til 57% íbúanna séu á aldursbilinu 15 til 29 ára.
Líkur séu á þjóðfélagslegri ólgu í Afríku og Miðausturlöndum sökum þess að þjóðfélögin muni ekki ráða við að sjá ungu kynslóðinni farboða.
Jákvæðu fréttirnar – að því gefnu að smærri fjölskyldur þýði meiri lífsgæði til lengra tíma litið – eru þær að fæðingartíðni mun dragast saman í Afríku, eða fara úr um 5 börnum á hverja konu nú í 2,5 börn 2050.
Sífellt lengri mannsævi mun þýða fleiri gamalmenni en nokkru sinni.
Þannig má lesa úr einu grafa Hayutins að meðalaldur í Kína er talin munu tvöfaldast úr um 40 árum um miðjan sjötta áratug síðustu aldar í 80 ár árið 2050. Á meðan Kína eldist verði Afríka ung og á milli 2 og 10% íbúanna undir 65 ára aldri árið 2050.
Ýtarlegar er fjallað um mannfjöldaþróunina í Kína í skýrslu fræðimannanna Qiang Li, Mieke Reuser, Cornelia Kraus og Juha Alho, Aging of a giant: a stochastic population forecast for China, 2001-2050. Segir þar að árið 1982 hafi hlutfall 65 ára og eldri í Kína verið 4,91%. Hlutfallið sé nú um 7% og muni ríflega fjórfaldast í um 29% árið 2050. Af um 1.243 milljónum Kínverja sem byggi landið 2050 verði um 360 milljónir 65 ára og eldri.