Vesturbakkagirðingin verður ekki fjarlægð

Reuters

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, segir að Ísrael hafi engan áhuga á að taka niður girðinguna sem girðir af Vesturbakkann. Sagði hann grindverkið veigamikinn lið í öryggi Ísraels.

Fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að palestínsk yfirvöld hefðu komið á framfæri þeirri beiðni til Barack Obama, Bandaríkjaforseta, að þess yrði krafist að grindverkið yrði fjarlægt, með tilliti til þess að ástand öryggismála á Vesturbakkanum hefði batnað.

Netanyahu sagði við þingið að þakka mætti girðingunni að öryggi væri nú betra, hún hindraði aðgang palestínskra sjálfsmorðsvígamanna að ísraelskum bæjum. Þar af leiðandi myndi girðingin vera áfram þar sem hún er.

Forsætisráðherrann var kvaddur að þinginu eftir að fjörtíu þingmenn stjórnarandstöðunnar skrifuðu undir fyrirspurn þar sem hann var krafinn skýringa á stefnu sinni í efnahagsmálum og alþjóðamálum.

Forsætisráðherrann sagði ennfremur að Ísrael myndi krefjast þess að framtíðarríki Palestínu yrði vopnalaust og að átökum myndi aðeins ljúka þegar látið yrði af kröfum gagnvart Ísrael.

Hann sagði enn fremur að Íran væri enn mesta ógnin við landið. Stjórnin í Teheran hefði ekki hvikað frá þeirri fyrirætlun sinni að byggja kjarnorkuvopn.

Ísrael vinnur að því að fá á sitt band fjölda erlendra ríkja og mynda breiða fylkingu þjóða gegn Íran. Sagði ráðherrann að í Íran væri grimm stjórn sem kúgaði fólk sitt.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka