Hryðjuverkalögregla í Frakklandi handtók í dag mann sem grunaður er um að hafa sent Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands og öðrum ráðamönnum landsins hótunarbréf og byssukúlur í pósti.
Fjöldi ráðamanna hefur fengið slík bréf í pósti síðustu mánuði frá hópi sem kallar sig Cell 34. Þeirra á meðal eru innanríkisráðherrann, Michele Alliot-Marie, dómsmálaráðherrann, Rachida Dati, Alain Juppe, fyrrverandi forsætisráðherra, Jacques Blanc, þingmaður UMP flokksins, flokks Sarkozy og Raymond Couderc, þingmaður.
Í bréfunum sem eru vélrituð, er viðtakandi sagður geta lent í slysi eða óhappi á næstunni. Bréfunum hafa fylgt byssukúlur og er litið á bréfin sem beina hótun.
Maðurinn sem lögregla hefur nú í haldi, grunaðan um bréfasendingarnar, hefur verið nefndur Thierry J. Hann er 51 árs og er félagi í byssuklúbbi í Herepian í suður Frakklandi.
Lífsýni fundust á bréfunum og voru þau borin saman við lífsýni sem voru tekin úr hinum handtekna. Við leit í íbúð mannsins fundust gögn sem benda ótvírætt til tengsla hans við hópinn sem sendi bréfin, Cell 34. Þá fundust samskonar umslög í íbúð mannsins og notuð voru undir hótunarbréfin.
Lögregla hefur sætt mikilli gagnrýni vegna seinagangs við rannsókn málsins. Frakklandsforseti kallaði yfirmenn lögreglunnar á teppið fyrir nokkru og krafðist þess að kraftur yrði settur í rannsóknina. Það skilaði þeim árangri að meintur sendandi hótunarbréfanna er nú í haldi lögreglu.
Búist er við því að hinn handtekni verði fljótlega fluttur í sérstakt öryggisfangelsi fyrir hryðjuverkamenn í París.