Lögregla slær á kjaftasögur

Komið hefur í ljós að  þrír piltar sem voru bendlaðir við dauða sextugrar konu í Ålsgårde í Danmörku reyndu einungis að hjálpa konunni eftir að hún hlaut höfuðáverka við fall. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. 

Konan Mona Egebjerg sagði eiginmanni sínum er hún kom ringluð og illa slösuð heim til sín þann 14. júní að hún hafi hlotið höfuðáverkana er piltarnir réðust á hana. Hún lést tíu dögum síðar af áverkunum.

Rannsókn lögreglu hefur nú leitt í ljós að piltarnir sem eru 13 og 14 ára reyndu einungis að aðstoða konuna. „Myndin er allt önnur. Drengirnir reyndu í raun að aðstoða Monu Egebjerg eftir að hún datt og fékk sár höfuðið,” segir Henning Svendsen rannsóknarlögreglumaður hjá Nordsjællands Politi.

„Piltarnir þrír buðu slasaðri konunni að hringja á sjúkrabíl en hún hafnaði því og ráfaði í burtu. Þar sem þeir höfðu áhyggjur af henni eltu þeir hana að Statoil-bensínstöð þar sem hún þurrkaði af sér blóðið. Þá héldu þeir sína leið.”Skömmu síðar mun Egebjerg hafa dottið á ný og hlotið við það hina banvænu áverka.

Svendsen segir piltana aldrei hafa verið grunaða um aðild að málinu og þeir hafi þeir sýnt lögreglu fullan samstarfsvilja. Þá segir hann að ákveðið hafi verið að greina frá málinu opinberlega til að slá á sögusagnir um að drengirnir hafi ráðist á konuna eða reynt að ræna hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert