Bíræfið rán var framið í Västberga í suðurhluta Stokkhólms í morgun. Svo virðist, sem fjórir menn hafi stolið þyrlu og flogið henni að verðmætageymslu öryggisgæslufyrirtækis. Þar lentu þeir þyrlunni á þaki geymslunnar, sprengdu sér leið inn í húsið og höfðu peningapoka á brott með sér í þyrlunni.
Þetta gerðist klukkan 5:15 að sænskum tíma í morgun. Þyrlan, sem notuð var við ránið, fannst skömmu síðar mannlaus í Arninge norðan við Stokkhólm.
Sænskir fjölmiðlar hafa eftir lögreglu, að líklega hafi fjórir menn framið ránið. Ekki er vitað hve ránsfengurinn var stór. Þeir virðast einnig hafa unnið skemmdir á þyrlum lögreglunnar þannig að þær komust ekki á loft.
Peningageymslan var á vegum fyrirtækisins G4S. Talsmaður fyrirtækisins sagði við sænska sjónvarpið, að starfsmenn fyrirtækisins hefðu verið inni í byggingunni þegar ræningjarnir réðust til atlögu en engan hefði sakað.