Lögregla í Colorado í Bandaríkjunum ætlar að yfirheyra fjölskyldu, sem komst í heimsfréttirnar í gærkvöldi þegar óttast var að 6 ára drengur, Falcon Heene, hefði klifrað upp í heimatilbúinn loftbelg, sem síðan losnaði og flaug af stað í mikilli hæð og á miklum hraða. Í ljós kom hins vegar, að drengurinn var ekki í loftbelgnum heldur hafði hann falið sig í bílskúr við heimili sitt.
Jim Alderden, lögreglustjóri í Larimersýslu, segir að lögreglan sé sannfærð um að engin brögð hefðu verið í tafli, en lögreglumenn myndu leita skýringa á ummælum drengsins í viðtali í þættinum Larry King Live á sjónvarpsstöðinni CNN í gærkvöldi.
Þar spurði fjölskyldufaðirinn, Richard Heene, son sinn hvers vegna hann hefði ekki komið úr felustað sínum þótt hann hefði heyrt að kallað var á hann, svaraði Falcon: „Þið sögðuð að við hefðum gert þetta fyrir þáttinn."
Mörgum þótti þessi ummæli benda til þess, að atburðurinn hefði verið sviðsettur en Richard Heene hefur ítrekað neitað því. Þegar hann var spurður að því í þættinu Today á NBC sjónvarpsstöðinni hvort hann hefði sett þetta á svið sagði hann: „Alls ekki, alls ekki. Og ég er að verða hálf þreyttur á að vera alltaf spurður um þetta. Hvað myndi ég græða á því? Ég hef ekkert að selja, ég hef ekkert að auglýsa."
Álagið virtist síðan hafa sett mark sitt á drenginn því hann kastaði upp meðan feðgarnir voru í beinni sjónvarpsútsendingu NBC.
Heene fjölskyldan hefur lifað talsvert litríku lífi og þótti mörgum það skjóta stoðum undir kenningar um að ekki væri allt eins og sýndist með loftbelgsævintýrið. Fjölskyldan hefur komið fram í raunveruleikaþáttum í sjónvarpi, smíðað einkennilegar uppfinningar og elt hvirfilbylji og storma.