Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur beint því til stjórnvalda í Myanmar, áður Burma, að þeir sleppi Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, lausri. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, er væntanlegur í opinbera heimsókn til Asíu og mun þar funda með forsvarsmönnum herforingjastjórnarinnar.
„Að okkar mati ætti hún ekki að vera í haldi heldur ætti að sleppa henni lausri,“ sagði Clinton á blaðamannafundi í Manila, höfuðborg Filippseyjanna, og vísaði þar til friðarnóbelsverðlaunahafans sem eytt hefur sl. tveimur áratugum í stofufangelsi. „Við munum halda áfram að kalla eftir skilyrðislausri lausn hennar.“
Árið 1990 vann stjórnmálaflokkur Suu Kyi meirihluta í almennum kosningum, en herforingjastjórnin hefur aldrei viðurkennt þennan sigur og hefur meira eða minna síðan þá haldið Suu Kyi í stofufangelsi.
Á blaðamannafundinum kom fram að Clinton hefði rætt málefni Myanmar á fundi sínum með Gloria Arroyo, forseta Filippseyja og Alberto Romulo, utanríkisráðherra landsins, í upphafi tveggja daga opinberrar heimsóknar hennar til eyjanna.
Herforingjar í Myanmar undirbúa nú fyrstu kosningarnar í landinu í tvo áratugi, en Aung San Suu Kyi hefur hvatt landsmenn til þess að sniðganga kosningarnar sem hún lýsir sem falskri tilraun herforingjastjórnarinnar til þess að réttlæta yfirráð sín.
Opinber heimsókn Obama til Asíu hefst í Singapore um helgina þar sem hann mun funda með leiðtogum Sambands Suðaustur-Asíu þjóða (Association of Southeast Asian Nations), en í þeim hópi eru Filippseyjar og Myanmar.
Búist er við því að Thein Sein, forsætisráðherra Myanmar, komi til fundar við efnahagsnefnd sambandsins nk. sunnudag. Fundur Obama og Sein væri fyrsti fundur þjóðarleiðtoga landanna tveggja í 43 ár.