Stjórn Hamas á Gaza tilkynnti í dag að þeir Palestínumenn sem hyggist ferðast til Ísrael verði að sækja um ferðaleyfi með þriggja daga fyrirvara. Gangandi vegfarendur geta einungis farið um landamærastöðina í Beit Hanun (Erez) milli Gaza og Ísrael.
Þessi nýja regla á einungis við um Palestínumenn en ekki útlendinga, að sögn innanríkisráðuneytis Hamas stjórnarinnar. Sendifulltrúar erlendra ríkja, hjálparstarfsmenn og blaðamenn fara helst um landamærastöðina í Erez.
Innanríkisráðuneytið sagði einnig að það muni krefja öryggissveitir og opinbera starfsmenn stjórnar Palestínumanna á Vesturbakkanum um ferðaleyfi áður en þeir fái að fara til Egyptalands um landamærastöðina í Rafah.
Hamas stjórnin hefur aukið mjög eftirlit við landamærastöðina í Erez á undanförnum mánuðum. Þar eru nú komnar stöðvar þar sem töskur eru skoðaðar og nöfn og vegabréfanúmer þeirra sem fara um landamærin eru skráð. Það á jafnt við um útlendinga og Palestínumenn.