Vilja ekki að skopmyndirnar verði endurbirtar

Múslímar um allan heim létu reiði sína í ljós með …
Múslímar um allan heim létu reiði sína í ljós með ýmsum hætti. Sumir brenndu þjóðfána Dana. Reuters

Yfirgnæfandi meirihluti Dana er sammála ákvörðun danskra fjölmiðla um að endurbirta ekki skopmyndirnar umdeildu af Múhameð spámanni, en skammt er síðan reynt var að ráða skopmyndateiknarann Kurt Westergaard af dögum. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar.

Alls sögðust 84,2% svarenda vera sammála þessari ákvörðun, en 11,7% eru henni ósammála. Óákveðnir eru 4,1%, að því er fram kemur i könnun stofnunarinnar Rambøll /Analyse, sem var birt í Jótlandspóstinum í dag.

Blaðið er það sama sem birti 12 skopmyndir af Múhameð spámanni í september 2005, sem ollu miklu fjaðrafoki meðal múslíma um allan heim. Myndunum var mótmælt með hatrömmum hætti víða. Auk þess var ritstjórum blaðsins og skopmyndateiknaranum hótað lífláti. 

Tuttugu og átta ára gamall Sómali, sem býr í Danmörku, var ákærður fyrir að hafa brotist inn á heimili Westergaards á nýársdag og hótað að myrða hann með öxi.

Westergaard, sem er 74 ára, teiknaði flestar skopmyndanna. Ein þeirra fór sérstaklega fyrir brjóstið á múslímum, en það er mynd af spámanninum með sprengjutúrban.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert