Telur Karzai kunna að eiga við fíkniefnavanda að etja

Hamid Karzai og Barack Obama nýlega.
Hamid Karzai og Barack Obama nýlega. Reuters

Fyrrverandi sendimaður Sameinuðu þjóðanna í Afganistan lýsti í viðtali við MSNBC sjónvarpsstöðina í dag miklum efasemdum um andlegt jafnvægi Hamids Karzais, forseta Afganistans og sagði að hugsanlega neytti forsetinn ólöglegra lyfja. 

„Hann fær reiðiköst, hann lætur tilfinningarnar stundum hlaupa með sig í gönur og er hvatvís. Raunar segja sumir, sem þekkja vel til í forsetahöllinni, að hann sé hrifinn af sumum af ábatasömustu útflutningsvörum Afganistans," sagði Galbraith og vísaði þar til þess að Afganar eru helstu ópíumframleiðendur heims.  

Þegar Galbraith var beðinn um að rökstyðja þessar fullyrðingar betur svaraði hann: „Það eru upplýsingar um þetta en hver sem ástæðan er þá getur (Karzai) verið mjög tilfinningaríkur." 

Karzai hefur ítrekað sakað Bandaríkin um að blanda sér í afgönsk málefni og að útlendingar, þar á meðal Galbraith, hefðu staðið fyrir stórfelldum kosningasvikum í héraðs- og forsetakosningum í Afganistan á síðasta ári. 

Galbraith sagði hins vegar í dag, að kosningasvikin hefðu verið skipulögð af stuðningsmönnum Karzais og hann hefði notið góðs af þeim. Galbraith var vikið úr embætti yfirmanns sendinefndar SÞ í Afganistan vegna ágreinings um hve langt ætti að ganga gagnvart afgönskum stjórnvöldum vegna kosningasvikanna.

Karzai hefur látið ýmis ummæli falla á fundum að undanförnu sem menn hafa lyft brúnum yfir. Um helgina sagðist hann meðal annars myndu íhuga að ganga til liðs við uppreisnarmenn talibana ef afganska þingið styddi ekki tilraunir hans um að ráða yfir yfirkjörstjórn landsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert