Svonefnt líkklæði frá Tórínó, sem margir trúa að sé líkklæði Jesú Krists, verður sýnt opinberlega í Tórínó í dag í fyrsta skipti í áratug. Búist er við að um 2 milljónir manna muni skoða klæðið þar næsta eina og hálfa mánuðinn.
Um er að ræða klæði sem er 4,4 metrar á lengd og 1,1 metri á breidd. Mynd af andliti sést á klæðinu, sem margir telja að sé ásjóna Krists sjálfs, en sagan segir að klæðinu hafi verið vafið utan um jarðneskar leifar hans þegar hann var tekinn niður af krossinum á Golgata.
Það fannst í frönsku borginni Troyes á miðri 14. öld. Geislakolsmælingar sem gerðar voru 1988 virtust sýna fram á að þræðirnir í klæðinu væru frá miðöldum, milli 1260 til 1390, en þær niðurstöður hafa verið dregnar í efa.
Benedikt XVI páfi mun skoða klæðið í byrjun maí. Það var síðast sýnt opinberlega í Róm árið 2000.