Kappræður í breskum sjónvarpssal í fyrsta sinn

PAUL MCERLANE

Næsta vika verður spennandi í breskum stjórnmálum, því þá fer kosningabaráttan af stað fyrir alvöru, þegar stefnuskrár flokkanna verða birtar og leiðtogarnir mætast í sjónvarpskappræðum. Þingkosningar hafa verið boðaðar í Bretlandi 6. maí.

Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins mætir þeim David Cameron, formanni Íhaldsflokksins og Nick Clegg, formanni frjálslyndra demókrata, í sjónvarpssal á fimmtudaginn. Kappræðurnar verða að bandarískri fyrirmynd og eru þær fyrstu sem haldnar eru fyrir þingkosningar í Bretlandi.

Kappræðurnar gætu því haft mikil áhrif á niðurstöðuna, en fyrirfram er búist við því að Cameron komi sterkastur út úr þeim, en það er líka talið einna mikilvægast fyrir hann að koma vel út, þar sem væntingarnar séu mestar á honum.

Skoðanakannanir í bresku blöðunum nú um helgina benda til þess að enginn flokkur muni ná hreinum þingmeirihluta í kosningunum. Flestar kannanir sýna íhaldsmenn með um 8 prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn, en svo gæti farið að það dugi ekki til.

Íhaldsmenn hafa haft undirtökin mestallan tímann síðan Brown tók við forsætisráðherrastólnum af Tony Blair árið 2007, en bilið hefur minnkað síðan kreppan lét undan síga í lok síðasta árs.

Á morgun gefur Verkamannaflokkurinn út stefnuskrá sína og þá verður þinginu einnig formlega slitið. Gefið hefur verið til kynna að í stefnuskrá flokksins verði engin stór loforð um ríkisútgjöld, en að stefnan verði rekin undir slagorðinu „metnaðarfullt en viðráðanlegt”.

Brown missir af kjarnorkuöryggismálafundi í Washington á morgun og þriðjudag vegna þess að hann verður á kosningafundum. David Miliband utanríkisráðherra mun fara í hans stað.

Íhaldsflokkurinn mun gefa út sína stefnuskrá á þriðjudaginn en þá er talið að Cameron muni leggja áherslu á að Bretar „sameinist, taki afstöðu og horfi fram á veginn með bjartsýni.”

Cameron segir í viðtali við Sunday Telegraph í dag að ef hann hljóti umboð til að leiða þjóðina mun hann sameina hana að baki sér og stjórna fyrir hönd allra í Bretlandi. „Kosningarnar er enn hægt að vinna,” segir hann. „Það er alveg mögulegt að vinna hreinan meirihluta. Það er það sem við stefnum á.” Hann bætir því við að fimm ár til viðbótar af Gordon Brown muni gera Bretland að mjög drungalegum og niðurdrepandi stað.

Formennirnir þrír:Nick Clegg, Gordon Brown og David Cameron.
Formennirnir þrír:Nick Clegg, Gordon Brown og David Cameron. TOBY MELVILLE
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka