Olía hætt að renna úr holunni

Bandaríska strandgæslan segir, að olía renni ekki lengur úr borholu í Mexíkóflóa en breska olíufélagið BP hóf í gær aðgerðir til að reyna að stöðva lekann sem verið hefur í fimm vikur.

Thad Allen, yfirmaður hjá strandgæslunni, sagði að aðgerðir BP til að fylla upp í holuna, virðist hafi borið árangur og olía og gas komi ekki lengur upp. 

„Þeim hefur tekist að ná stjórn á holunni, þeir eru að dæla leðju niður og hefur tekist að stöðva olíurennslið," sagði Allen við WWL First News útvarpsstöðina. 

Hann sagði hins vegar of snemmt að lýsa því yfir, að tekist hefði að stöðva olíulekann úr holunni fyrir fullt og allt en fylgst væri með því hvort stíflan í holunni héldi. 

Aðgerðirnar, sem hófust í gær, felast í því að dæla leðju og öðrum jarðvegi niður í borholuna og reyna þannig að stífla hana. Takist að stöðva olíu og gaslekann á að setja steypu í holumunnann og loka honum varanlega.

Fyrri tilraunir til að stöðva olíulekann báru ekki árangur. Milljónir lítra af olíu hafa runnið úr borholunni og borist að ströndum Mexíkóflóa og valdið óbætanlegu tjóni á vistkerfum þar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert