Borgarstjórinn í Búkarest í Rúmeníu tilkynnti í dag að búið væri að leysa frá störfum stjórnendur Giulesti fæðingasjúkrahússins, þar sem eldsvoði olli dauða fjögurra nýbura á mánudag.
Rannsókn fer nú fram á því hvernig stóð á því að eldur kviknaði á gjörgæsludeild sjúkrahússin, þar sem ellefu nýburar voru undir eftirliti í hitakössum.
Þrjú barnanna létust í eldsvoðanum og hið fjórða hálfum sólarhring síðar, á öðru sjúkrahúsi í borginni sem sérhæfir sig í meðhöndlun brunasára.
Börnin sjö sem eftir lifa eru alvarlega slösuð og enn tvísýnt um ástand þeirra.
Að minnsta kosti tuttugu og fimm læknar skiptast á að veita börnunum stöðuga aðhlynningu og tíu ísraelskir sérfræðingar í brunasárum komu til Búkarest í dag til að aðstoða við meðhöndlun barnanna.
Fréttavefur CNN hefur eftir heilbrigðisráðherra Rúmeníu, Cseke Attila, að hann hefði beðið borgarstjórann um að víkja allri stjórn sjúkrahússins frá störfum meðan rannsókn færi fram.
Attila sagðist hafa hugleitt að segja sjálfur af sér vegna atviksins en hætti við þar sem ekki er um ríkisrekið sjúkrahús að ræða heldur er það rekið af borginni sjálfri.
Fyrstu niðurstöður rannsóknar á upptökum eldsins benda til að kviknað hafi í rafmagnssnúru í loftræstikerfinu, sem hafi legið bak við viðarskáp í herbergi á gjörgæsludeildinni. Snúran hafi hvorki verið einangruð né rétt gengið frá henni.
Þá hafi enginn starfsmaður verið inni í herberginu og talið að eldurinn hafi náð að krauma í um klukkustund áður en vart varð við hann.
Saksóknari í Búkarest yfirheyrir nú starfsfólk og foreldra barnanna sem lentu í eldsvoðanum.
Samkvæmt vinnureglum á hjúkrunarfræðingur ávallt að vera inni í herberginu.
Hjúkrunarfræðingurinn sem var á vakt þegar eldurinn kom upp segist hafa skroppið frá til að fara á salernið en óljóst sé hversu lengi hún hafi verið í burtu.
Slökkviliðsstjórinn í Búkarest, sem stjórnaði slökkvistarfi, segir að eldurinn á mánudag hafi verið svo mikill að útilokað sé að nokkur hefði getað sloppið út af gjörgæsluherberginu. Með öðrum orðum geti það ekki staðist að nokkur fullorðinn hafi verið inni í herberginu í talsverðan tíma eftir að eldurinn kviknaði.
Til stendur að skoða upptökur úr öryggismyndavélum til að reyna að komast til botns í því hvernig þessi harmleikur hafi átt sér stað.