Ætlaði að græða á svikinni neyðaraðstoð

Ár hafa víða flætt yfir bakka sína í Brasilíu í …
Ár hafa víða flætt yfir bakka sína í Brasilíu í ár, en þó ekki í bænum Guaratina. AFP

Rannsókn er nú hafin á framferði bæjarstjóra nokkurs í norðausturhluta Brasilíu, en talið er að hann hafi lýst  yfir neyðarástandi vegna flóða algjörlega af tilefnislausu, í þeim tilgangi að „græða" eina milljón bandaríkjadala í neyðaraðstoð, að sögn saksóknara.

Grunur á vafasömu framferði bæjarstjórans Ademar Pinto Rosa, í Guaratinga, vaknaði þegar embætti saksóknara í Brasilíu komst að því að veðustofan átti engin gögn um að einn einasti rigningardropi hefði fallið dagana 15. og 16. Júní síðastliðinn, andstætt því sem bæjaryfirvöld í Guaratinga höfðu fullyrt.

Saksóknarinn Bruno Gontijo Teixeira segir fjölmiðlum í Brasilíu í dag að honum hafi þótt stórfurðulegt að heyra yfirlýsingu Pinto Rosa um að bærinn væri illa leikinn vegna gríðarlegra rigninga, flóða og aurskriða sem hefðu lagt í rúst 10 heimili og tvær brýr.

„Það féll aldrei rigningardropi úr lofti, þetta var allt saman gabb," segir Gontijo. Flóð hafa verið tíð víða í Brasilíu á árinu en bæjarbúar Guaratina hafa verið blessunarlega lausir við slíkar hamfarir. Verði Pinto Rosa fundinn sekur um svik verður hann að líkindum að greiða neyðaraðstoðina til baka úr eigin vasa og ólíklegt annað en að hann tapi embættinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert