Stjórnvöld í Bretlandi hafa beðið stjórnvöld í Líbýu um að tryggja það að því verði ekki fagnað opinberlega að eitt ár er liðið frá því að Abdelbaset Ali Mohmed al-Megrahi, sem var dæmdur fyrir Lockerbie tilræðið, var látinn laus úr haldi í Skotlandi.
Var hann látinn laus eftir að læknar úrskurðuðu um að al-Megrahi ætti aðeins þrjá mánuði ólifaða vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Þessi úrskurður læknanna réð úrslitum um að skosk yfirvöld samþykktu að láta al-Megrahi lausan því samkvæmt skoskum reglum er ekki hægt að sleppa föngum af mannúðarástæðum nema þeir eigi þrjá mánuði eða skemmri tíma ólifaðan.
Áður höfðu læknar úrskurðað að al-Megrahi ætti allt að tíu mánuði ólifaða. Al-Megrahi var fagnað sem þjóðhetju þegar hann sneri aftur til Líbýu 20. ágúst í fyrra.
270 manns létu lífið í Lockerbie-tilræðinu í desember 1988 sem var mannskæðasta hryðjuverk í heiminum þar til árásirnar voru gerðar á Bandaríkin 11. september 2001.
Á vef BBC kemur fram að bandarískir þingmenn hafi ítrekað óskað eftir læknaskýrslum en hermt var að ríkisstjórn Líbýu hafi borgað þremur læknum fyrir vottorðið sem greiddi fyrir því að líbýski hryðjuverkamaðurinn var leystur úr haldi í Skotlandi.
Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði á sínum tíma að lausn hans hafi verið mistök og hefur forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, einnig velt því fyrir sér hvort rétt hafi verið að láta hryðjuverkamanninn, sem enn er á lífi, lausan.