Námuverkamennirnir í Chile sem fastir eru á 700 metra dýpi neðanjarðar fengu í dag sína fyrstu heitu máltíð í 26 daga. Þeim voru sendar kjötbollur, kjúklingur og hrísgrjón í gegnum 8 cm víð göng sem eru líflína þeirra við umheiminn. Til þessa hafa mennirnir aðeins nærst á prótínbættri mjólk og glúkósa-töflum.
Fjórir sérfræðingar frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, komu að San Jose námunni í gær en þeir eru fengnir til ráðgjafar um hvernig máviðhalda heilsu námumannanna og verða á staðnum út vikuna. Næringarfræðingur úr teyminu aðstoðaði við að setja máltíðina saman. Aðaláhersla verður lögð á að mennirnir fái nægilegt magn kaloría, reglulegan svefn og viðhaldi bjartsýni sinni. Reynt verður að leggja mat á þyngd námumannanna og hversu mörg kíló þeir hafi misst í prísundinni.
Þá er verið að búa til kerfi til að afmarka tímann niðri í námunni. Mikilvægt sé upp á andlegt heilbrigði mannanna að þeir geti grein mun dags og nætur og auk þess að rýmið sem þeir hafa sé skipulagt niður í ákveðin svæði.
Verkfræðingar , sem hófu á mánudag að bora göng mönnunum 33 til bjargar, eru nú komnir niður á 20 metra dýpi og 3-4 mánuði til viðbótar mun taka að ná alla leið niður til mannanna. Á miðvikudag var gert hlé á borunum til að styrkja gangavegginn með steypu eftir að lítillar sprungu varð vart í grjótinu. Námuverkamönnunum hefur verið sagt að björgunaraðgerðin geti tekið langan tíma, en þeim hefur ekki verið greint nánar frá því hversu lengi áætlað er að það taki.