Ed Miliband, nýkjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins, sagði í dag að flokkurinn færðist ekki lengra til vinstri með kjöri hans. Hann réði sér sjálfur og verkalýðsfélög stjórnuðu honum ekki.
Íhaldsflokkurinn hefur haldið því fram að Miliband, sem í gær vann nauman sigur á bróður sínum David í kosningum um forystu flokksins, væri í vasa verkalýðsleiðtoga og að kjör hans væri skref aftur á við fyrir Verkamannaflokkinn.
Eins og segir í frétt breska blaðsins The Guardian var Miliband studdur til forystu af þremur stærstu verkalýðsfélögum Bretlands en hann hafnar viðurnefninu „Rauði Ed“ sem hann hefur fengið frá gangrýnendum sínum.
„Ég er fyrir miðju í stjórnmálum en þetta snýst um að skilgreina hvar miðlínan liggur,“ sagði Miliband í viðtali. Í kvöld mun hinn nýkjörni leiðtogi funda með þingmönnum Verkamannaflokksins í fyrsta sinn.
.