Lifðu á 15 dósum af túnfiski

Námuverkamönnunum var vel fagnað er þeim var bjargað upp á …
Námuverkamönnunum var vel fagnað er þeim var bjargað upp á yfirborð jarðar. Reuters

Námuverkamennirnir 33 sem sátu fastir í 69 daga í gull-og koparnámunni í Síle  gáfu upp alla von um að verða einhvern tímann bjargað áður en þeir fundust á lífi. Þetta sagði Franklin Lobos, einn af verkamönnunum í viðtali við spænsku útvarpsstöðina Cadena Ser í dag.

„Sumir skrifuðu meira að segja kveðjubréf. Við sáum ekki fram á að verða bjargað, við leituðum allsstaðar að útgönguleið, við brenndum dekk og föt með olíu til að vekja á okkur athygli. Það voru andartök þar sem við héldum að við kæmumst aldrei út. En þarna var alltaf trúin á Guð, með hans hjálp yrði okkur bjargað.“

Lobo, sem er fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, var bílstjóri námuverkamannanna og keyrði þá til og frá námunni. Að sögn Lobos var hann sá sem komst næst því að deyja

„Ég var að fara niður þegar steinn féll, við héldum áfram og svo hrundi allt sex metrum fyrir aftan mig.“

Mennirnir lifðu á litlum matar- og drykkjarskömmtum í 17 daga, eða allt þar til björgunarmönnum tókst að bora litla holu niður til mannanna.

„Við áttum 15 dósir af túnfiski fyrir 33 manneskjur og við borðuðum teskeið á mann á hverjum sólarhring, svo á 48 klst fresti og að lokum borðuðum við teskeið á 72 klst fresti. Þetta var hræðilegt og ég vil ekki upplifa þetta aftur.“

Lobo sagði að mennirnir hefðu allan tímann verið hræddir um annað hrun, jafnvel eftir að björgunarmennirnir voru búnir að bora holuna til þeirra.

„Matur byrjaði að koma til okkar og við róuðumst en við urðum aldrei alveg rólegir því við gátum enn heyrt brakhljóð og vorum ekki vissir um að við kæmumst út. Við báðum fólk alltaf um að halda áfram að biðja.“

Námuverkamennirnir sátu fastir í 69 daga í námunni.
Námuverkamennirnir sátu fastir í 69 daga í námunni. HO
Carolina Lobos, dóttir Franklins Lobos prófar björgunarbúnaðinn.
Carolina Lobos, dóttir Franklins Lobos prófar björgunarbúnaðinn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert