Flóttamannabúðirnar í Dadaab í Kenía, sem sagðar eru vera þær stærstu í heimi, eru yfirfylltar og neyðast 700 fjölskyldur til þess að búa í námunda við þær við „ómannúðlegar aðstæður,“ að sögn góðgerðasamtakanna lækna án landamæra. Yfirvofandi rigningartímabil bætir svo gráu ofan á svart.
Búðirnar voru upphaflega reistar fyrir 90 þúsund manns, en í dag búa þar 300 þúsund sómalískir flóttamenn. Talið er að um 3 þúsund manns hafi reist sér skýli í búðunum af eigin rammleik.
Læknar án landamæra hafa nú biðlað til heimsins og kenískra stjórnvalda um hjálp, en þeir segja búðirnar vera á floti vegna rigninga síðustu daga.
„Hundruð fjölskyldna, sem hafa búið í bráðabirgða-skýlum í einskismannslandi síðustu fjóra mánuði, bíða nú eftir að verða komið fyrir í almennilegum búðum,“ sagði Joke Van Peteghem, yfirmaður lækna án landamæra í Kenía.
Þúsundir flýja stríðið í Sómalíu í hverjum mánuði og koma margir þeirra fótgangandi til Kenía.