Franska netveitan OVH sagðist í dag ætla að biðja dómara að úrskurða hvort hún geti hýst vefinn WikiLeaks. Eric Besson, iðnaðarráðherra Frakklands, hvatti í dag til þess að bannað yrði að hýsa WikiLeaks á frönskum netþjónum en vefurinn var fluttur þangað eftir að bandaríska netverslunin Amazon hætti að hýsa hann í vikunni.
„Við höfum ákveðið að biðja dómara að úrskurða um lögmæti þess að þessi vefsíða sé hýst á frönsku yfirráðasvæði," sagði Octave Klaba, framkvæmdastjóri OVH, í yfirlýsingu. „Hvorki stjórnmálamenn né OVH geta tekið ákvörðun um að loka vefsíðu heldur er það aðeins á færi dómskerfisins."
Besson bað fyrr í dag stofnunina CGIET, sem stýrir netinu í Frakklandi, að finna leiðir til að koma í veg fyrir að WikiLeaks yrði hýstur á frönskum netþjónum. Sagði Besson að ástandið væri óviðunandi.
Amazon ákvað í gær að hætta að hýsa WikiLeaks eftir þrýsting frá bandarískum stjórnmálamönnum, sem eru reiðir vegna þess að vefurinn er að birta þúsundir bandarískra sendiráðspósta.
„Frakkland getur ekki hýst vefsvæði, sem brjóta trúnað diplómatískra samskipta og stofna í hættu fólki, sem á að njóta verndar samkvæmt diplómatareglum," sagði Besson í bréfinu til CGIET.