Þorpsbúar í Uttarakhan héraði á Indlandi krefjast nú aðgerða yfirvalda eftir að þriðja konan var drepin af villtu tígrisdýri sem gengur laust og hrellir íbúa svæðisins. Mótmælendur söfnuðust saman við hlið þjóðgarðs á svæðinu, með syrgjandi ættingja kvennanna í fararbroddi, og kröfðust þess að dýrið yrði vegið.
Þriðja konan, Kalpana Devi, lést á miðvikudag eftir árás tígursins. Starfsmaður þjóðgarðarins bar það sem eftir var af líkamsleifum hennar, annan fótinn, inn í nærliggjandi þorp. 45 dagar eru síðan drápin hófust og hafa þau vakið mikinn hrylling íbúa sem telja að sama dýrið hafi drepið konurnar þrjár. Krefjast þeir þess að yfirvöld sendi veiðimenn á svæðið til að elta dýrið uppi og fella það.