Talið er að kostnaður vegna þeirrar eyðileggingar sem fellibylurinn Yasi hefur valdið á norðausturhluta Ástralíu nemi á bilinu þremur til fimm milljörðum dala (um 350 - 580 milljarðar kr.). Þetta er mat EQECAT, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að smíða líkön sem líkja eftir náttúruhamförum.
Tryggingarfyrirtæki treysta mjög á upplýsingar frá EQECAT, sem byggir niðurstöður sínar á flóknum reikniaðferðum. Þannig fær það út möguleg áhrif náttúruhamfara.
Fyrirtækið AIR hefur einnig reiknað út kostnaðinn. Skv. þeirra útreikningi er kostnaður vegna eyðileggingar töluvert lægri, eða sem nemur um 1,5 milljónum dala (um 175 milljarðar íslenskra króna.)
Ástralir eru enn að jafna sig eftir hamfaraflóðin sem ollu ekki síður mikilli eyðileggingu.
Yasi fór yfir Mission Beach, sem er á milli borganna Innisfail og Cardwell, þegar hann gekk fyrst á land sl. miðvikudag. Mikill landbúnaðar er á þessum slóðum og þangað berst mikill straumur ferðamanna, sen svæðið er skammt frá Kólarrifinu Mikla.
Fellibylurinn er sá öflugasti sem hefur gengið á land í Ástralíu í heila öld. Vindhraðinn mældist um 80 metrar á sekúndu og teygði hann sig yfir mjög stórt svæði. Auga stormsins var um 35 km í þvermál, svo dæmi sé tekið.