6,5 milljónir fyrir 237 ára vínflösku

Flaskan er frá árinu 1774.
Flaskan er frá árinu 1774.

Hópur vínáhugamanna reiddi fram 57.000 evrur (um 6,5 milljónir kr.) fyrir 237 ára gamla hvítvínflösku á uppboði sem fór fram á vínhátíð í Jura-héraði í Frakklandi í dag. Um metupphæð er að ræða.

„Loksins hefur gult vín (fr. vin jaune) slegið almennilega í gegn,“ segir Bernard Badoz, skipuleggjandi hátíðarinnar, um víntegundina.

„Það er ekki bilun að selja flösku á 57.000 evrur,“ sagði hann um flöskuna, sem er frá árinu 1774 þegar Lúðvík 16. Frakklandskonungur réði ríkjum.

Pierre Chevrier keypti vínið fyrir hönd hópsins. Hann segir að verðið hafi ekki komið sér á óvart.

„Það er mér ástríða að opna flöskur og ég er himinlifandi að hafa keypt þessa flösku af gulu víni, sem ég mun drekka,“ sagði hann.

Ekki er um hefðbundið hvítvín að ræða heldur minnir vínið mjög á sérrí. Vínið er látið þroskast í tunnu með gersveppum og þannig verður vínið gult að lit, sem er einkennandi fyrir vín frá þessu svæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka