Bretar hætta þróunaraðstoð til 16 landa

Afganskar konur bíða með börnum sínum eftir matarskömmtun frá hjálparsamtökum.
Afganskar konur bíða með börnum sínum eftir matarskömmtun frá hjálparsamtökum. Reuters

Bretar hyggjast hætta beinni þróunaraðstoð við 16 lönd, þar á meðal Rússland, Kína og Írak, samkvæmt BBC. Þá verður þróunaraðstoð til Indlands sett á ís. Á heildina verður alþjóðleg þróunaraðstoð Breta hinsvegar aukin um þriðjung á kjörtímabilinu.

Haft er eftir þróunarmálaráðherranum Andew Mitchell að útgjöld í málaflokkinn verði héðan af mun markvissari en áður. Í drögum bresku ríkisstjórnarinnar að áætlun í þróunarmálum kemur fram að það sé bæði gott fyrir efnahag og öryggi Bretlands að verja fé í þróunaraðstoð.

Til stendur að gera þróunaraðstoðina gagnsærri og skilvirkari og leggja sérstaka áherslu á verkefni sem styðja stúlkur og konur. Fjármagninu verður beint til þeirra 27 landa þar sem dauðsföll vegna barnsburða og vegna malaríu eru hlutfallslega flest, s.s. Ghana og Afganistan.

Indland er það land sem hefur þegið hvað mest í þróunaraðstoð frá Bretum undanfarin ár en í Bretlandi halda margir fram þeirri skoðun að land þar sem efnahagurinn vex um tæp 10% á hverju ári þurfi ekki aðstoð frá Bretum lengur. Engu að síður býr um hálfur milljarður Indverja enn við sára fátækt sem þarf að útrýma ef ná á markmiðum um að draga úr fátækt á heimsvísu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert