Múammar Gaddafi Líbíuleiðtogi ávarpaði þjóðina í ríkissjónvarpi landsins. Hann sakar al-Qaeda hryðjuverkasamtökin og evrópskar ríkisstjórnir um að bera ábyrgð á því að ungt fólk í Líbíu hafi gert uppreisn.
Ávarpið var sýnt snemma í morgun og þar sást Gaddafi tala við stuðningsmenn sína. Hann segir að al-Qaeda og evrópskrar ríkisstjórnir reyni að sundra þjóðinni, segir á vef BBC.
„Íbúar Benghazi standa ekki frammi fyrir öðru vali en því að fara út á götu - karlar, konur og börn - til að leysa Benghazi undan þessu svikum,“ sagði hann.
„Benghazi, sem var eitt sinn fögur, er að breytast í rústir. Það verður að frelsa hana,“ sagði hann ennfremur.
Hersveitir hliðhollar Gaddafi hafa gert harðar árásir á úthverfi borgarinnar Zawiya. Þá hafa þær reynt að ná aðaltorgi borgarinnar á sitt vald.
Þá hafa Bandaríkin sagt að ákvörðun um flugbann yfir Líbíu eigi að vera í höndum Sameinuðu þjóðanna.
Talið er að rúmlega 1.000 hafi látist frá því uppreisnin hófst fyrir tæpum þremur vikum. Uppreisnarmennirnir vilja steypa Gaddafi af stóli, en hann hefur setið við völd í fjóra áratugi.
Þá telja SÞ að um 212.000 íbúar, flestir farandverkamenn, hafi yfirgefið landið.