Skipum hefur skolað upp á land og bílar fljóta til á götum hafnarborga í Japan í mikilli flóðbylgju sem skall á landinu eftir risajarðskjálfta upp á 8, 8. Margir eru taldir slasaðir í strandhéraðinu Miyagi og í Tókýó.
Enn hafa engar fregnir borist af dauðsföllum en skjálftinn reið yfir síðdegis að staðartíma og skulfu háhýsi í Tókýó í fleiri mínútur. Þar hefur verið tilkynnt um minnst sex elda, neðanjarðarlestakerfið liggur niðri og hefur fólk flykkst út á götur.
Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Japan, Taívan, Rússlandi og Maríönueyjum. Skjálftinn átti upptök sín á hafsbotni tæpa 400 kílómetra norðaustur af höfuðborginni.