Ríkisstjórn Múammars Gaddafis Líbíuleiðtoga bauðst í dag til að veita uppreisnarmönnum sem stýra hafnarborginni Misrata almenna sakaruppgjöf hætti þeir að berjast. Þetta segir talsmaður ríkisstjórnarinnar.
Á blaðamannafundi í dag vísaði Mussa Ibrahim í yfirlýsingu sem dómsmálaráðuneyti landsins sendi frá sér. Þar eru allir vopnaðir hópar í Misrata hvattir til að leggja niður vopn og hljóta sakaruppgjöf að launum.
Ibrahim segir að tilboðið sé nú á borðinu og renni það út á þriðjudag. Þá segir hann að gefist uppreisnarmennirnir upp þá fái þeir að yfirgefa borgina, sem er sú þriðja stærsta í Líbíu.
Fyrr í dag komu NATO-herskip í veg fyrir að hersveitir Gaddafis gætu komið fyrir djúpsjávarsprengjum í höfninni í Misrata. NATO segir að stjórnvöld reyni að trufla sendingar á hjálpargögnum til borgarinnar, sem hersveitir Gaddafis hafi setið um undanfarna tvo mánuði.