Spá matarskorti árið 2030

Mynd úr myndasafni
Mynd úr myndasafni mbl.is/Jim

Bresku góðgerðarsamtökin Oxfam vara við alvarlegum matvælaskorti í heiminum eftir 20 ár, verði ekkert að gert.

Samtökin spá því að árið 2030 muni verð á nokkrum algengum fæðutegundum eins og korni hafa tvöfaldast vegna fólksfjölgunar og uppskerubrests. Það muni koma verst niður á þeim sem verst eru staddir í heiminum og verja allt að 80% tekna sinna í mat.

 „Matvælakerfi heimsins er að svigna undan síauknum þrýstingi vegna breytinga á loftslagi og vistkerfi heimsins, sífelldrar fólksfjölgunar, aukins orkukostnaðar, aukinnar eftirspurnar eftir kjöti og mjólkurvörum og samkeppni um landsvæði,“ segir í skýrslu sem Oxfam sendi frá sér.

„Alþjóðasamfélagið gengur í svefni inn í ófyrirséða óheillaþróun, sem hægt væri að koma í veg fyrir.“

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að 900 milljónir manna þjáist af hungri.

Áætlað er að árið 2050 verði íbúafjöldi jarðar 9,1 milljarður, sem er 30% fjölgun frá því sem nú er, en nú eru jarðarbúar um 6,9 milljarðar.

Talið er að eftirspurn eftir matvælum muni aukast miklu meira en sem þessu nemur á þessu tímabili, því að lífshættir velmegunarríkja krefjast fleiri hitaeininga, en sífellt fleiri þjóðir taka upp slíka lífshætti.

Til að vekja athygli á þessu hefur Oxfam hrint af stað átaki í 45 löndum. Meðal talsmanna átaksins eru Lula Luiz Inacio Lula da Silva, sem er fyrrum forseti Brasilíu, Desmond Tutu, friðarverðlaunahafi Nóbels og leikkonan  Scarlett Johansson.

Samtökin telja að ýmislegt sé hægt að gera til að sporna við þessari óheillaþróun, meðal þess að minnka sorp og takmarka vatnsnotkun og að auka vægi lífrænna orkugjafa í efnaðri löndum.

Einnig leggja samtökin til að komið verði á stofn „Alþjóðamatarbanka“ í því skyni að efla samstarf á milli landa á sviði matvælamála.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert