Hart deilt um smokka hjá SÞ

Páfagarður vill ekki sjá smokka í baráttunni gegn HIV og …
Páfagarður vill ekki sjá smokka í baráttunni gegn HIV og eyðni. Reuters

Í tímamótayfirlýsingu sem samþykkt var á þingi Sameinuðu þjóðanna um eyðni er það markmið sett fram að veita 15 milljónum manns lyfjameðferð og að koma alfarið í veg fyrir HIV-smit á milli mæðra og barna fyrir árið 2015. Hart var tekist á um vísanir í notkun smokka í yfirlýsingunni.

Bæði Páfagarður og nokkru múslímaríki lögðust gegn því að hvetja til notkunar smokka í yfirlýsingunni. Þá var kallað eftir því að meiri áhersla væri lögð á að hjálpa samkynhneigðum, vændiskonum og eiturlyfjafíklum.

Aldrei hefur áður verið talað á eins berorðan hátt um notkun smokka til að koma í veg fyrir dreifingu eyðni eða stuðning við þessa hópa í skjali sem ráðstefna á vegum SÞ hefur samþykkt.

Í stað þess að tala aðeins um mikilvægi skírlífis og að fólk sé trútt maka sínum er nú lögð áhersla á rétta og stöðuga notkun smokka.

Baulað var á fulltrúa Páfagarðs þegar hann mótmæli því að minnst væri á smokka, vændiskonur, homma og fíkla.

„Þetta getur gefið fólki þá hugmynd að ákveðnar tegundir af óábyrgri hegðun sé siðferðislega viðurkenndar. Páfagarður styður ekki notkun smokka sem hluta af lausninni á HIV- og eyðnifaraldrinum,“ sagði Jane Adolthe, fulltrúi Páfagarðs og tóku fulltrúar Íran í sama streng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert