Vs. Ægir bjargaði um 100 manns

Varðskipið Týr eftir að það var merkt vegna eftirlits fyrir …
Varðskipið Týr eftir að það var merkt vegna eftirlits fyrir ESB. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Varðskipið Ægir, sem nú sinnir landamæragæslu fyrir Evrópusambandið, bjargaði í dag um 100 manns af vélarvana seglbáti nálægt eynni Krít í Miðjarðarhafi. Fólkið ætlaði að sigla frá Egyptalandi til Ítalíu, að sögn grísku strandgæslunnar.

AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni grísku strandgæslunnar að ítölskum yfirvöldum í Róm hafi borist neyðarkall. „Upphaflega var leitað nálægt Möltu þangað til íslenskt varðskip frá  Frontex (landamærastofnun ESB) fann þau nálægt Krít,“ sagði talsmaðurinn.

Samkvæmt heimildum mbl.is var það varðskipið Ægir sem fann fólkið og tók það um borð. Ægir er í þjónustu Frontex en varðskipið Týr sinnir eftirliti með túnfiskveiðum á Miðjarðarhafi fyrir Fiskveiðieftirlitsstofnun ESB. Þetta er stærsta björgun íslensks varðskips til þessa, enda var bjargað nærri 100 manns. 

Seglskipið var statt um 85 sjómílur (160 km) frá bænum Paleohora á suðurodda Krítar þegar varðskipið fann það. Sagt var að 95 manns væru um borð í bátnum, en í neyðarkallinu kom nákvæmur fjöldi ekki fram. Þjóðerni fólksins var heldur ekki vitað. 

Talsmaður grísku strandgæslunnar sagði þó vitað að bátsverjar væru flestir karlar, en einnig hafi konur og börn verið um borð.  „Nú er verið að flytja þau um borð í skip Frontex og yfirvöld hafa ekki ákveðið hvert fólkið verður flutt til heilsufarsskoðunar,“ sagði talsmaðurinn. 

Veður mun vera gott á þessum slóðum. Grikkir tryggðu sér aðstoð Frontex í fyrra til að stemma stigu við miklum straumi flóttafólks frá Afríku og Asíu til landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert