Sænskur saurgerill án tengsla við Þýskaland

E.coli sýkingin í Evrópu hefur átt rætur sínar að rekja …
E.coli sýkingin í Evrópu hefur átt rætur sínar að rekja til grænmetis. Reuters

Sænsk heilbrigðisyfirvöld eru með til skoðunar eitt tilfelli E.coli sýkingar, sem valdið hefur nokkrum dauðsföllum í Þýskalandi og víðar. Umræddur maður hefur aldrei til Þýskalands komið og er þetta í fyrsta sinn sem slíkt tilvik kemur upp í Svíþjóð.

Yfirvöld í Svíþjóð upplýstu í dag að sýkingin væri sömu tegundar og hefði verið að hrella Þjóðverja. Um er að ræða mann á miðjum aldri frá suðurhluta Svíþjóðar sem veiktist og hefur hann engin tengsl við Þýskaland eða hefur verið í samskiptum við fólk sem þaðan hefur komið. Til þessa hafa sjúklingar í Svíþjóð með E.coli sýkingu haft gesti frá Þýskalandi eða önnur tengsl við landið.

Þessi skæði saurgerill, sem upprunninn er í grænmeti, hefur valdið 48 dauðsföllum í Þýskalandi. Alls hafa um 4.000 veikst og þar af um 850 þeirra alvarlega. Umræddur maður í Svíþjóð komst tímanlega undir læknishendur og er sagður á batavegi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert