Mikill léttir fyrir gríska hagkerfið

Samkomulag, sem leiðtogar evruríkjanna náðu í Brussel í gær um aðgerðir til að ná Grikklandi upp úr skuldafeni, er „mikill léttir" að sögn fjármálaráðherra Grikklands.

„Þetta er mikill léttir fyrir gríska hagkerfið," sagði  Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikkja, á blaðamannafundi í Brussel í morgun. Venizelos bætti við að starfsemi grískra banka væri nú tryggð. 

Í samkomulagi leiðtoga evruríkjanna felst að Grikkland fær 159 milljarða evra að láni til að endurskipuleggja opinberar skuldir landsins. Evruríkin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun veita Grikkjum aðgang að 109 milljarða evra  lánsfé og einkabankar taka þátt í aðgerðunum með 50 milljarða evra framlagi.

Á síðasta ári samþykktu evruríkin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að veita Grikkjum 110 milljarða evra lán en það reyndist ekki nægjanlegt.  

Samþykkt var einnig á fundi leiðtoganna í gær, að gera þau lánskjör, sem Írar og Portúgalar nutu þegar þeir fengu fjárhagsaðstoð, léttbærari. Þá fær sérstakur sjóður heimild til að kaupa ríkisskuldabréf á eftirmarkaði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert