Minnst 80 myrtir í Utøya

Aðstandendur fórnarlamba tilræðisins í Utøya komu saman á hóteli í …
Aðstandendur fórnarlamba tilræðisins í Utøya komu saman á hóteli í Ósló í gærkvöldi. reuters

Minnst 80 manns voru myrtir í skotárásinni í Utøya að því er norska lögreglan staðfesti snemma í morgun. Óttast er að talan eigi enn eftir að hækka. Í haldi lögreglunnar er 32 ára maður, Anders Behring Breivik, sem talinn er standa á bak við bæði illvirkin.

Í ítarlegri umfjöllun um hryðjuverk þessi kemur fram, að þjóðarsorg ríkir í Noregi vegna hinnar mannskæðu árásar í Utøya og sprengitilræðis í miðborg Ósló í gær, en í henni biðu að minnsta kosti sjö manns bana.

Í gærkvöldi var talið að 17 manns hefðu beðið bana í tilræðunum, 10 í Utøya og sjö í Ósló. Í morgun staðfesti lögreglan að blóðbaðið í eynni hefði verið miklu meira en í fyrstu var talið og mikill fjöldi fórnarlambanna verið skotinn á sundi við strönd eyjunnar.

Sjónarvottur segir að tilræðismaðurinn, sem var í lögreglubúningi, hafi beðið fólk að safnast saman í hópa og síðan hafið skothríð á það. Margir hafi reynt að flýja inn í skóg og trjálundi. 

Engin samtök hafa lýst hryðjuverkunum á hendur sér en norskir fjölmiðlar herma að Behring Breivik hafi átt tengsl við öfgasamtök hægrimanna á borð við nýnasista.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert