Fjölmenn mótmælaganga hófst í dag klukkan hálf fimm að íslenskum tíma í Madrid höfuðborg Spánar gegn atvinnuleysi og efnahagserfiðleikunum í landinu. Þúsundir taka þátt í göngunni og hafa hundruð manna komið til borgarinnar frá tugum annarra spænskra borga til þess að taka þátt. Margir þeirra hafa komið fótgangandi frá heimaborg sinni.
„Þetta var mjög erfitt vegna hitans,“ segir Miguel Angel Ruiz Gallego í samtali við AFP fréttaveituna en hann lagði af stað fótgangandi til höfuðborgarinnar 25. júní síðastliðinn ásamt 15 öðrum frá hafnarborginni Malaga sem er í 600 kílómetra fjarlægð. Þeir tóku aðeins með sér litla kerru með mat, vatni og lyfjum.
Eins og margir aðrir Spánverjar hefur Gallego, sem er 33 ára, glímt við atvinnuleysi og ekki fengið varanlega atvinnu. Atvinnuleysi á Spáni er nú um 21% sem er það hæsta í þróuðum ríkjum.Rætt er við fleiri sem gengið hafa til Madrid frá ýmsum borgum á Spáni til þess að taka þátt í mótmælunum í frétt AFP fréttaveitunnar og hafa þeir allir hliðstæða sögu að segja. Þeir bjuggust sumir ekki við að ná til höfuðborgarinnar en mættu mikilli gestrisni á leið sinni.
Mótmælin nú eru framhald af fyrri mótmælum á Spáni vegna efnahagsástandsins sem lögregla hefur reynt að brjóta á bak aftur. Fram kemur í frétt AFP að skoðanakannanir hafi sýnt að um 2/3 hlutar Spánverja hafi samúð með mótmælunum.