Um 50 manns sem tekið hafa þátt í mótmælum á Spáni undanfarnar vikur gegn atvinnuleysi og efnahagserfiðleikunum í landinu héldu af stað í dag fótgangandi til Brussel í Belgíu með það fyrir augum að vekja athygli á málstað sínum.
Margir þeirra höfðu áður farið fótgangandi til Madrid, höfuðborgar Spánar, frá ýmsum spænskum borgum til þess að taka þátt í mótmælum síðastliðinn sunnudag. Leiðin frá Madrid til Brussel er um 1.500 kílómetra löng. Höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru í Brussel en Spánn er aðili að sambandinu.
Mótmælendurnir gera ráð fyrir að ganga um 24 kílómetra á dag að meðaltali á leiðinni til Brussel og búast við því að komast á leiðarenda 8. október næstkomandi.