Krossinn á Ground Zero

Krossinum var slakað niður í kjallara þar sem hann verður …
Krossinum var slakað niður í kjallara þar sem hann verður einn sýningargripa á safni um hryðjuverkaárásirnar 11. september 2011. Reuters

Krosslaga stálbiti, sem fannst í rústum Tvíburaturnanna, var tákn vonar í hugum margra sem unnu að björgun úr rústunum og hreinsunarstarfi. Bitinn er nú orðinn að helgigrip og er búið að koma honum fyrir þar sem turnarnir stóðu.

Verkamaðurinn sem sá bitann í brakinu taldi sig hafa reynt kraftaverk. „Ég sá Golgata mitt í allri eyðileggingunni og hörmungunum,“ sagði Frank Silecchia. „Þetta var tákn um að Guð hefði ekki yfirgefið okkur.“

Stálbitinn er um sex metra hár og vegur um tvö tonn. Hann var fluttur tímabundið að kirkju en hefur nú aftur verið fluttur á Ground Zero, þar sem Tvíburaturnarnir stóðu. Krossinum var slakað 21 metra niður í kjallara þar sem hann verður til sýnis á safni um hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001.

Forstöðumenn safnsins segja að krossinn verði á safninu vegna sögunnar sem honum tengist á svæðinu, en ekki vegna þess að hann sé kristilegt tákn. 

„Hann er öflugur vegna þess að hann veitti svo mörgum huggun - hann er hluti af sögu svæðisins,“ sagði Joe Daniels, forseti minningarstofnunarinnar. Opna á safnið á næsta ári.

Séra Brian Jordan, kaþólskur prestur sem var í forystu þeirra sem vildu varðveita krossinn, segir hann vera mjög táknrænan fyrir kristindóminn, fórn, tap og endurnýjun. Jordan söng messur við krossinn vikum saman. Fólk sem aðhylltist mörg ólík trúarbrögð tók þar þátt.

Rudy Guliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, kom ásamt um 200 björgunarmönnum og aðstandendum fórnarlamba í athöfn sem haldin var áður en krossinn var fluttur. 

Guliani sagði krossinn hafa gegnt mikilvægu hlutverki þegar fólk tókst á við atburði 11. september 2001. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert