Mistök að sleppa Lockerbie manni

Al-Megrahi kyssti hönd Gaddafis Líbíuleiðtoga við heimkomuna.
Al-Megrahi kyssti hönd Gaddafis Líbíuleiðtoga við heimkomuna. Reuters

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag að það hafi verið „mikil mistök“ að sleppa Lockerbie-sprengjumanninum Abdelbaset Ali Mohmed al-Megrahi úr fangelsi og senda hann til Líbíu.

Fréttavefur Daily Telegraph segir að utanríkisráðherrann hafi sagt ráðgjöf lækna, sem notuð var til að réttlæta frelsun sprengjumannsins af mannúðarástæðum, hafi reynst mjög léttvæg.

Hague lét þessi orð falla eftir að al-Megrahi sást í sjónvarpsmynd á stuðningsmannasamkomu fyrir Gaddafi Líbíuleiðtoga. Al-Megrahi var að vísu veiklulegur og í hjólastól en sprelllifandi tveimur árum eftir að læknar sögðu hann eiga einungis þrjá mánuði ólifaða.

„Ég tel að það að herra al-Megrahi skyldi sjást á sjónvarpsskjám okkar sé enn ein áminningin um að það voru gerð mikil mistök þegar honum var sleppt,“ sagði Hague utanríkisráðherra.

Al-Megrahi var eini maðurinn sem var sakfelldur fyrir að sprengja farþegaflugvél Pan Am í loft upp árið 1988 yfir skoska bænum Lockerbie. Alls fórust 270 manns í sprengingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka