Árás stöðvar ekki flugdrekaflug

Palestínsk börn reyna við heimsmet í flugdrekaflugi.
Palestínsk börn reyna við heimsmet í flugdrekaflugi. MOHAMMED SALEM

Tíu manns eyðilögðu aðstöðu Sameinuðu þjóðanna á Gasaströndinni sem notuð er undir sumarbúðir fyrir börn um miðnætti í gær. Brenndu mennirnir fána SÞ og hluta af sviði. Árásin stöðvaði börnin þó ekki í að reyna við heimsmet í flugdrekaflugi í dag.

Talsmaður samtaka SÞ sem styðja palestínska flóttamenn fordæmir árásina og segir hana beinast gegn börnum Gasa og SÞ. Krafðist hann þess að yfirvöld á Gasa rannsökuðu málið og kæmu lögum yfir þá sem bæru ábyrgð á henni.

Þrátt fyrir árásina freistuðu börnin í sumarbúðunum þess að slá heimsmet í flugdrekaflugi. Reyndu þau að slá út met sem sett var í Kína í apríl þegar yfir tíu þúsund börn flugu flugdrekum sínum um loftið.

Í fyrra réðust vopnaðir og grímuklæddir menn tvisvar á sumarbúðirnar og kveiktu í tjöldum, stólum, borðum og fleiru lauslegu. Íslömskum öfgamönnum var kennt um þær árásir en þeir telja sumarbúðirnar táknrænar fyrir vestræn spillingaráhrif því að strákar og stelpur fá að blanda geði óhindrað þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert