Tveir sárir eftir skotárás í Egyptalandi

Íslamistar mótmæltu um allt Egyptaland í dag.
Íslamistar mótmæltu um allt Egyptaland í dag. AMR ABDALLAH DALSH

Í það minnsta tveir eru sárir eftir að hópur vopnaðra manna sem veifuðu fánum með íslömskum slagorðum hófu skothríð í borginni El-Arish í Egyptalandi í dag. Herma fregnir að önnur manneskjan sé ellefu ára gamalt barn.

Í kringum 150 manns á pallbílum og bifhjólum skutu með árásarrifflum út í loftið og neyddu skelfingu lostna íbúa til þess að flýja inn á heimili sín að sögn vitna á staðnum.

Veifuðu þeir svörtum fánum sem á stóð „Það er enginn guð nema allah“. Reyndu mennirnir svo að brjóta sér leið inn á lögreglustöð en þar tóku lögreglu- og hermenn á móti þeim. Skiptust þeir á skotum fyrir utan stöðina að sögn vitna.

Áður höfðu mennirnir skemmt styttu af fyrrverandi forseta landsins, Anwar Sadat, sem íslamskir öfgamenn myrtu árið 1981. Hófust ofbeldisverkin eftir friðsöm mótmæli íslamista í hádeginu um allt land þar sem þess var krafist að ný stjórnarskrá Egyptalands taki fram að það sé múslímaríki.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert