Cameron ræðir við þingmenn

Lögreglumenn á götum Lundúna.
Lögreglumenn á götum Lundúna. Reuters

Þingmenn í Bretlandi hafa verið kallaðir til fundar við David Cameron, forsætisráðherra, og búist er við að hann muni útskýra frekari aðgerðir yfirvalda til að sporna gegn þeirri miklu óöld sem gengið hefur yfir landið.

Undanfarna sólarhringa hafa hörð átök átt sér stað á milli lögreglu og æstra óeirðaseggja á götum úti í helstu borgum Bretlands.

Kemur þetta fram á fréttavef BBC.

Að loknum fundi með þingmönnum er búist við að Cameron haldi blaðamannafund þar sem hann greinir frá stöðu mála ásamt því að leggja fram tillögur um fjárhagslega aðstoð til þeirra sem misst hafa heimili sín og fyrirtæki í óeirðunum.

Lögreglan í Lundúnum hefur handtekið hátt í eitt þúsund manns frá því ólætin hófust í borginni og 371 hefur verið kærður fyrir ofbeldisverk og ólæti. Hátt í 400 manns hafa verið handteknir í Vestur-Miðlöndum og yfir 140 hafa verið handteknir í Manchester og Salford. Búast má við frekari handtökum á næstunni. 

Tölur yfir særða eru enn fremur óljósar en talið er að á annað hundrað lögreglumenn hafi leitað læknisaðstoðar eftir átökin undandfarna daga. Jafnframt er ljóst að fjöldi almennra borgara hefur særst í óeirðunum.

David Cameron hefur áður heimilað notkun á gúmmíkúlum og öflugum vatnsdælum til að ráða við óeirðaseggi. Ef til kæmi að nota vatndælurnar á mótmælendur væri það í fyrsta sinn sem slíkt yrði gert á meginlandi Bretlands.

Eftir að Cameron fyrirskipaði stórfelldan flutning lögreglumanna til höfuðborgarinnar virðist sem ástandið þar sé orðið viðráðanlegra en áður. Ástandið í öðrum borgum Bretlands er að sögn enn eldfimt þó nokkuð hafi dregið úr óeirðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert