Kínverjar uppnefna sendiherra

Gary Locke, nýr sendiherra Bandaríkjanna í Kína.
Gary Locke, nýr sendiherra Bandaríkjanna í Kína. Reuters

Nýskipaður sendiherra Bandaríkjanna í Kína, Gary Locke, hefur vakið mikla athygli fyrir alþýðlegt fas. Hann kom til Peking um helgina, bar sjálfur farangur sinn og ók um á venjulegum fólksbíl. Þetta þykir afar frábrugðið hegðun fyrirrennara hans og starfsbræðra.

Locke, sem rekur ættir sínar að hluta til Kína, hefur þegar hlotið nafnbótina „Bakpokaferðalangurinn“ í kínverskum fjölmiðlum og netsíðum.

Hann tekur við Jon Huntsman, sem stefnir að því að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs.

Vonir eru bundnar við að Locke takist að „byggja brú á milli Kína og Bandaríkjanna, “eins og segir í kínversku dagblaði.  En þrátt fyrir uppruna sinn, þá megi ekki gleyma því að starf hans felst fyrst og fremst í því að gæta hagsmuna Bandaríkjanna.

Locke, sem er af þriðju kynslóð kínverskra innflytjenda, tekur við starfinu á erfiðum tímum, en sjaldan hefur verið meiri spenna í samskiptum landanna tveggja.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert