Feðgarnir Rupert og James Murdoch og fyrrum ritstjóri News of the World liggja nú undir nýju ámæli um óheiðarleika og yfirhylmingu eftir að bréf sem fyrrum blaðamaður blaðsins, Clive Goodman, ritaði var birt. Goodman annaðist skrif um bresku hirðina.
Í frétt breska blaðsins Guardian í dag kemur fram að bréfið hafi verið skrifað fyrir fjórum árum en ekki birt fyrr en í dag. Goodman heldur því fram í bréfinu að almenn vitneskja hafi verið um símahleranir blaðsins á ritstjórn þess og þær ræddar á ritstjórnarfundum. Svo hafi verið allt þar til Coulson bannaði frekari umræðu um þær.
Coulson hafi síðan heitið Goodman að hann héldi starfinu ef hann lofaði að blanda blaðinu ekki inn í hleranir þegar hann kæmi fyrir rétt vegna þeirra. Jafnframt segir Goodman að hann hafi stundað hleranir með fullum stuðningi og vitneskju yfirmanna á ritstjórninni sem hann nafngreinir í bréfinu.