Fréttaskýring: Herför gegn spillingu kveikir í fjöldanum

Indverski andófsmaðurinn Anna Hazare
Indverski andófsmaðurinn Anna Hazare Reuters

Anna Hazare er orðinn að tákni fyrir andóf á Indlandi. Hazare hefur leitt baráttu gegn spillingu í landinu og þegar hann var handtekinn vegna mótmæla gegn nýjum lögum gegn spillingu, sem hann telur að gangi allt of skammt, fylltust götur landsins af mótmælendum.

Margir af stuðningsmönnum Hazare líkja honum við Mahatma Gandhi, sjálfstæðishetju Indverja. Hazare sækir einnig í smiðju hans. Hazare hóf á föstudag 15 daga hungurverkfall eftir að hundruð þúsunda stuðningsmanna fylgdu honum í göngu um Nýju Delí þrátt fyrir úrhellisrigningu. Gangan var sýnd beint um allt landið.

Hann gerir kröfu um að nýju lögunum verði breytt, í núverandi mynd muni þau engu breyta um spillingu í landinu. „Nú er að duga eða drepast, rétt eins og í sjálfstæðisbaráttunni,“ sagði hann í liðinni viku. „Annaðhvort tekst okkur fyrirætlan okkar eða við færum hina endanlegu fórn. Ríkisstjórnin er að reyna að blekkja íbúa þessa lands – við munum ekki láta það gerast.“

Manmohan Singh forsætisráðherra segir að herferð Hazare sé á misskilningi byggð, en honum hefur ekki tekist að slá á reiði almennings. Stjórn Singhs er með afgerandi meirihluta á þingi, en hvert spillingarmálið hefur rekið annað og nú hriktir í stoðum hennar.

Í mars varð mikið uppnám á indverska þinginu þegar Wikileaks birti bandarískan sendiráðspóst þar sem því var lýst að háttsettur aðstoðarmaður Congress-flokksins sýndi bandarískum sendierindreka „kassa með reiðufé“ sem sagt var að hefði verið notað til að múta þingmönnum til að verja stjórnina vantrausti 2008. Lekinn birtist aðeins nokkrum dögum eftir að ráðgjafafyrirtækið KPMG birti skýrslu þar sem sagði að spilling væri að verða svo mikil að það gæti staðið hagvexti í landinu fyrir þrifum. Ekki væri aðeins um það að ræða að hinn daglegi veruleiki þar sem greiða þyrfti mútur fyrir hvert viðvik, allt frá fæðingarvottorðum til viðskiptaleyfa, væri dragbítur á efnahagslífið, heldur umfangsmiklar svikamyllur þar sem stjórnvöld og viðskiptalífið kæmu milljörðum dollara undan.

Í febrúar var samgönguráðherra landsins, Andimuthu Raja, handtekinn og sakaður um að hafa selt aðgang að farsímatíðni fyrir brot af andvirðinu. Sumir fréttaskýrendur segja að þetta sé mesta hneyksli í sögu Indlands og endurskoðendur telja að ríkissjóður landsins hafi orðið af næstum 40 milljarða dollara tekjum með því að halda ekki uppboð á tíðnisviðinu.

Og ekki er ein báran stök. Herforingjar á eftirlaunum og ættingjar háttsettra stjórnmálamanna eru sakaðir um að hafa nælt sér í íbúðir í Mumbai, sem reistar voru fyrir stríðsekkjur. Spilling og fúsk einkenndi framkvæmd samveldisleikanna í Delí í fyrra og kostuðu þeir 4,1 milljarð dollara í stað 270 milljóna eins og í upphafi var ætlað og reyndust tekjurnar aðeins 38 milljónir dollara.

Hin daglega spilling hefur ásamt þessum stóru málum valdið vaxandi óánægju í landinu, sérstaklega hjá millistéttarfólki og hún fær nú útrás í stuðningi við herferð Hazares.

Þegar Hazare var handtekinn ásamt þúsundum mótmælenda jókst reiðin. Á miðvikudag flutti Singh ræðu í þinginu gegn Hazare og sagði að lögin gegn spillingu væru eina forgangsmál þingsins. Sama dag gengu tugir þúsunda manna um götur Nýju Delí og sögðu að vandinn, sem Singh þyrfti að taka á, væri ekki Hazare heldur spilling.

Í anda Gandhis

Anna Hazare er lágvaxinn, 74 ára gamall fyrrverandi bílstjóri úr indverska hernum. Hann dáir Mahatma Gandhi og klæðist líkt og hann. Hugmyndum hans um að byggja Indland upp í kringum sjálfbær þorp svipar til hugmynda Gandhis.

Hazare hóf fyrir helgi hungurverkfall gegn spillingu, en því vopni beitti Gandhi til að þrýsta á bresku nýlenduherrana á sínum tíma. Hazare barðist í stríði Indverja og Pakistana um Kasmír 1965. Eitt sinn slapp hann naumlega undan loftárás og kveðst þá hafa ákveðið að helga líf sitt velferð mannkyns.

Stuðningsmenn Anna Hazare
Stuðningsmenn Anna Hazare Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka