Konan sem sakar Dominique Strauss-Kahn, fyrrum framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að hafa reynt að nauðga sér árið 2003 í París harmar hversu höfðinglegar móttökur hann hafi fengið þegar hann kom til Frakklands á sunnudag.
„Ég get ekki trúað því að landar mínir fagni honum eins og hetju þrátt fyrir að hann sé með flekkað mannorð," ritar Tristane Banon á Facebook-síðu sína í dag.
„Fólk segir mér frá andstyggð sinni og ég þarf á stuðningi þess að halda til þess að geta staðið upprétt," bætir hún við og segir að á meðan hún þurfi ð halda sig til hlés brosi aðrir í átt að myndavélunum.
Strauss-Kahn kom til Parísar á sunnudag eftir að fallið var frá ákæru á hendur honum fyrir að hafa reynt að nauðga herbergisþernu á hóteli í New York 14. maí sl.
Fjölmennt lið stuðningsmanna og fréttamanna beið hans á flugvellinum.
Banon segir að ýmislegt þurfi að breytast í Frakklandi. Ekki megi líta á nauðganir og ofbeldi gagnvart konum sem smávægilega hluti og peningar og völd eigi ekki að geta hafið fólk upp fyrir lög.