Þrennt beið bana og tugir slösuðust, margir lífshættulega, þegar orrustuflugvél úr seinna heimsstríðinu fórst í keppni á flugmóti í Reno í Nevada í Bandaríkjunum.
Slysið átti sér stað klukkan 16:30 að staðartíma, 23:30 að íslenskum tíma í gærkvöldi. Voru 54 slasaðir áhorfendur fluttir undir læknishendur á sjúkrahús, 15 þeirra eru taldir í lífshættu.
Flugvélin var af gerðinni P-51 Mustang og er talið að vélarbilun hafi orðið í henni. Aðstandendur keppninnar segja að vélin hafi altjent ekki rekist í jörðina í lágflugi heldur verið tiltölulega hátt á lofti er hún virtist skyndilega verða stjórnlaus.
Brak úr flugvélinni dreifðist um stórt svæði. Flugmaðurinn var 74 ára gamall og samkvæmt læknisvottorði við hestaheilsu. Hann hafði stundað flugkeppnir á vél sinni, The Galloping Ghost, frá því á áttunda áratugnum. Hann á 120 keppnir að baki og hefur líka verið áhættuflugmaður í kvikmyndum.